föstudagur, september 10, 2010

Hverfisgatan...

Núna er komin í gang einhvers konar hjólreiða-tilraun á Hverfisgötunni. ÖLL bílastæði eru orðin græn með svona hvítum hjólaköllum á, og svo eru á nokkrum stöðum einhverjir grænir hringir yfir alla götuna. Norðan-megin á Hverfisgötunni er svo ekkert grænt (enda engin bílastæði) á þá koma bara hvítir hjólakallar á götuna. Bannað er að leggja í götunni og það er 30 km/klst hámarkshraði (man ekki hvort hann var hærri áður). Við sjáum mynd.

Hvernig er þetta svo að virka í framkvæmd?

Ég vinn sjálfur á Hverfisgötu, hjóla í vinnuna á hverjum degi og er áhugamaður um svona tilraunir. Ég hef hjólað götuna eftir breytingarnar, gengið hana endilanga og fylgist reglulega með.

Kalt mat. Þetta er algjört rugl. Í fyrsta lagi er 30 km./klst. hámarkshraðinn ekki virtur. Hver á réttinn er mjög óljóst. Hvað gerist t.d. þegar grænt bílastæði endar og verður að grænum hring? Á bíll að víkja? Á hjól að hjóla á miðri götunni þegar hjólað er í vesturátt? Má hjóla á gangstéttum? Og fleira.

Tilraunin stendur út september.

Svo er önnur tilraun að fara að hefjast með Suðurgötu. Það verður áhugavert.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, september 07, 2010

Endurvakning?

Sigurjón er að reyna að endurvekja bloggið, sem mér finnst góð hugmynd.

Facebook er gott að ýmsu leiti, en það vantar e-ð almennilegt material þar, s.s. detailaðar hjólasögur, golfblogg bestu bloggin, umfjöllun um Lakers, myndir af mér með Jack Bauer, o.s.frv.

Er þetta málið?
Endurvekja bloggið?
Er búið að drepa mogga-bloggið?

fimmtudagur, mars 18, 2010

Eldsmiðjan - 10 ára gömul verð

Ég fór á Eldsmiðjuna í hádeginu og fékk mér pizzu N, pepperoni special.

Í dag kostar þessi pizza - 16" - 1.655 kr., miðað við 10 ára gamalt verð.
Fullt verð í dag er hins vegar 2.595.

Hvað þýðir þetta?
* Jú, ég fæ 940 kr. afslátt af pizzunni, eða 36,22%.
* Pizzan hefur hækkað um 56,8% í verði á 10 árum.

Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 82% og undirvísitala 011 (Matur) hefur hækkað um 64,8%. Heimild: Hagstofa Íslands.

Niðurstaða: Fín pizza, góður afsláttur, hófleg hækkun á síðustu 10 árum miðað við almennt verðlag.

Efnisorð:

þriðjudagur, febrúar 16, 2010

Bjórrýni

Um helgina málaði ég dótaherbergi stelpnanna barbie-bleikt. Gústi bróðir hjálpaði til við fyrri umferðina, en semi þunnur Ommidonna mætti í þá seinni.

Þegar maður málar að kvöldi til (og jafnvel á öðrum tímum) þarf maður bjór við hönd. Ég fór í Heiðrúnu. Ég gerðist alþjóðlegur, var í tilraunagírnum og keypti 4 tegundir af bjór.

1. Föroya Veðrur Pilsnar. Færeyjar. Góður.
2. Moosehead Lager. Kanada. Fínn.
3. Saku Originaal. Eistland. Ekkert spes.
4. Budweiser Budvar. Tékkland. Góður.

Aðrar ferskar hugmyndir?

Efnisorð:

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Lakers


Lakers hafa verið á óvenjulega og óvæntu rönni í síðustu leikjum, eftir að bæði Kobe og Bynum meiddust.

1. Fyrst mættu þeir Portland á útivelli, en þar höfðu Portland unnið Lakers í síðustu 15 af 17 leikjum, og 9 síðustu. Samt mæta Lakers á svæðið og pakka þeim saman, 99-82.

2. Næst taka Lakers á móti strákunum í San Antonio. Þar er sama saga, öruggur sigur 101-89 gegn fullmönnuðu liði Spurs.

3. Í nótt var svo heimsókn til mormónanna í Utah, en þeir höfðu unnið einhverja 10 leiki í röð, og voru sjóðandi heitir. En þetta var bara létt hjá Lakers, 96-81.

Að meðaltali 84 stig fengin á sig, miðað við 96,4 yfir tímabilið.

Hvað er þetta að segja okkur? Eru Lakers betri án Kobe og Bynum, getur það verið?
Eða var kannski meiddur Kobe ekki að gera nógu góða hluti, slæm hittni í mörgum leikjum, etc? Munu Lakers jafnvel verða óstöðvandi þegar hann snýr aftur eftir meiðslin?

Maður spyr sig.

All star helgin er svo framundan núna um helgina.
Þar verður Shannon "The human trampolin" Brown í aðalhlutverki.

Áfram Lakers.

Efnisorð:

þriðjudagur, febrúar 09, 2010

Söndrusósa og Söndrudeig

Það stendur yfir pizza-einvígi: Hagnaðurinn vs. Ommidonna.
Í grunninn höfum við verið að nota sama hráefni; sömu uppskrift að deigi, sömu sósu, etc.
Hins vegar elda ég mínar pizzur á pizzasteini í ofni, en hann er hins vegar með pizzaofn.

Fyrir helgi vildi Ommidonna meina að hann væri búinn að fullkomna sínar pizzur, gaf þeim 10 í einkunn, og hélt því fram að hann væri betri pizzabakari en ég. Ég fagnaði þessari áskorun, og bauð honum í pizzaboð um helgina. En mig vantaði tromp á hendi.

Trompin voru tvö, bæði nýtt deig og ný sósa, og var hún Sandra pool-meistari svo elskuleg að senda mér uppskriftir; og það engin smá details (sem ég reyndar sleppi hér), og leyfði mér að deila þeim með ykkur.

Pizzadeig:
1 1/2 bolli heilhveiti
1 tsk salt
1 msk extra virgin ólífuolía
1 tsk þurrger (leyst upp í 1/2 bolla af rúmlega volgu vatni)
5 tsk clover honey (eða annað hunang)
Aðferð: Hveiti og salt blandað saman, hinu bætt í, hnoðað, látið hefast í 1 klst plús.
... þetta dugar í svona ca. eina og hálfa 12 tommu.

Pizzasósa:
1 msk ólífuolía
1 tsk choppaður hvítlaukur
2 plómutómatar (plómu mikilvægt)
1/2 msk þurrkaður basil
1/2 tsk oregano
1/2 tsk salt
1 msk tómat paste (ekki puré)

Aðferð: Hvítlaukur léttsteiktur í olíunni á pönnu. Hökkuðum plómutómötum bætt við, látið malla. Svo fara kryddin yfir, og að lokum paste-ið. Látið malla aðeins lengur.
... dugar einnig á ca. eina og hálfa 12 tommu.

Sjálfur mun ég ekki oftar kaupa tilbúna sósu né deig (sem ég hef reyndar aldrei gert).

Verði ykkur að góða.

Efnisorð:

þriðjudagur, desember 29, 2009

Santa Maria...

Í gær fór ég á veitingastaðinn Santa Maria, í annað skipti. Eftir fyrra skiptið bloggaði ég. Heimild.

Nema hvað, ég fékk mér sæmilegan borgara í gær. Hefði kannski betur fengið mér e-ð mexíkóskara.

Þegar ég var að borga fyrir matinn varð mér litið á töflu með úrklippum úr blöðum þar sem fólk var að hæla staðnum. Þar voru einnig úrklippur úr bloggfærslum, og m.a. úr þeirri sem ég vísa í hér að ofan.

Staðurinn klikkaði hins vegar á því að nota bara fyrsta paragraphið, en slepptu mikilvægum upplýsingum um strákana í Sigurrós sem gengu þarna framhjá.

Santa Maria, vægi fer minnkandi.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, desember 17, 2009

Essasú

Kristín María hitti essasú froskinn um daginn.
Að sjálfsögðu var tekin mynd.

Efnisorð:

miðvikudagur, desember 16, 2009

Sigurrós eru ekki ömurlegir...

En ef þú googlar "Sigurrós eru ömurlegir" þá er síðan mín að skila tveimur niðurstöðum.

Þetta er náttúrulega hneysa.

Hér eftir mun ég eingöngu nota Bing leitarvélina, í mótmælaskyni. Sjáið bara.

Bing, leitarsíða með tilfinningar.

Efnisorð: ,

Hjólablogg, næstbestu bloggin

Nóvember var slakur hjólamánuður hjá mér. Það eru nokkrar ástæður fyrir því.
Klattinn Hafrason, hinn eini sanni, var að skríða útúr egginu og það kallaði á bílferðir og þess háttar. Svo var bara kalt og snjór og hálka (væll væll væll) auk þess sem ég var ekki á nagladekkjum. Ofan á þetta var svo óvissan um hvort ég myndi hafa vinnu eftir áramótin (hvers vegna að kaupa nagladekk ef ég væri kannski bara að fara að hanga heima eftir áramót).

En núna hefur þetta breyst.

Ég mun hafa vinnu áfram, Klattinn er kominn í smá jólafrí/makeover og ég er fullur af skammdegis-orku. Því var fjárfest í nagladekkjum fyrir helgi.



Ég keypti mér 240 nagla dekk að framan og 106 að aftan. Þetta var samkvæmt ráðleggingum hjólanörda. Framdekkið stjórnar beygjum og bremsum að mestu leyti, og það að hafa líka 240 nagla að aftan myndi hægja of mikið á mér á beinu köflunum. Það er nefnilega lúmskt erfiðara að hjóla á nagladekkjum.


************

Víkur þá sögunni að sturtumálum tengdum hjólreiðum.

Það eru rúmir 12 km í vinnuna mína, og þar er engin sturta, sem er vandamál. Ég náði hins vegar hagstæðum samningum við aðila einn hérna í miðbænum um að fá að nota sturtuaðstöðuna þeirra. Kann ég þeim að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir.

Ég starfa hjá ríkisstofnun, og ákvað í gær að kanna sturtuaðstöðuna í ráðuneytum bæjarins. Til að gera langa sögu stutta komst ég að því að það er ein sturta fyrir öll ráðuneytin; í kjallaranum í Mennta- og Menningarmálaráðuneytinu. Þar myndast víst löng röð á morgnana. Það mætti segja að það væri skandall en ástæðan er "plássleysi". Samt hefur nú verið nóg pláss til að fjölga ríkisstarfsmönnum gríðarlega á undanförnum árum. Ég er hluti af þeirri fjölgun.

Maður veltir fyrir sér á tímum gjaldeyrisskorts, og hafandi ríkisstjórnarflokk sem kennir sig við grænt, hvort ekki væri bara þjóðhagslega hagkvæmt að græja nokkrar sturtur hér í helstu stofnunum bæjarins. Ég hef sent einum stjórnmálamanni fyrirspurn um málið. Ég hlakka til að lesa svörin, ef þau berast.

Mig langar allavega að halda áfram að hjóla.
Það bætir, hressir og kætir.

Efnisorð: